fbpx

Hafrar sem hestafóður

Hestar eru fóðraðir að uppistöðu á gróffóðri. Ef að gróffóðrið uppfyllir ekki allar fóðurþarfir hrossanna okkar, getum við notað viðbótar steinefnablöndur eða kjarnfóður.

Íslensk hey uppfylla að jafnaði próteinþörf fullorðinna hrossa en aukin orka getur því verið sótt í formi kolvetna sem finnast í kjarnfóðri. Auka próteinþarfar getur þó gætt hjá unghrossum í vexti og hrossum í mikilli keppnis- eða kynbótaþjálfun.  

Til eru margar tegundir af viðbótarfóðri fyrir hross á markaðnum. Til eru ýmist múslíblöndur, pressaðir kögglar eða þandir kögglar. Einnig er löng hefð  fyrir því að fóðra hross á kornvöru. Eitt aðal hráefnið í kjarnfóður fyrir hross í allt að 2.000 ár eru hafrar, einir og sér eða í fóðurblöndu.

Íslensk hey uppfylla að jafnaði próteinþörf fullorðinna hrossa en aukin orka getur því verið sótt í formi kolvetna sem finnast í kjarnfóðri.

Afhverju kjarnfóður eða korn?

Korn er notað sem viðbótarfóður með grasi eða heyi, til að auka orkustyrk fóðursins fyrir þá hesta sem þess þurfa. Það hentar fyrir hesta í mikilli þjálfun, keppnishesta, kynbótahross og mögur hross sem þarf að fita. Með fóðrun á sterkjuafurðum aukast glýkógenbirgðir í vöðvum sem nýtist í formi orku við mikið álag. Tafla 1 sýnir helstu næringargildi algengustu kornafurða.

Tafla 1: Helstu næringargildi fyrir algengustu kornvörur (per kg þurrefni).

 

Hafrar

Bygg

Hveiti

Maís

Nettó orka (MJ)

8,9

9,5

10,8

10,4

Prótein (%)

10,5

10

11

7

Fita (%)

5

2,4

2

4,4

Tréni (%)

11

3,7

2,3

2,3

Sterkja (%)

40

55

60

65

Kalsíum – Ca (%)

0,07

0,08

0,07

0,05

Fosfór – P (%)

0,3

0,4

0,36

0,3

Melting kolvetna

Hross nýta sér tvær gerðir kolvetna til næringar. Flókin/auðleyst kolvetni, þá helst trefjar í formi sellulósa sem nýttar eru með hjálp örverjugerjunar í víðgirni, og að lokum teknar þar upp sem rokgjarnar fitusýrur. Síðan eru það einföld/auðleyst kolvetni, aðallega sterkja og sykrur sem eru tekin upp í maga og smáþörmum. Til þess að melta sterkju þarf ensím sem kallast amylasi. Framleiðsla og virkni á þessu ensími í hrossum er hisn vegar heldur takmörkuð. Einnig er einstaklingsbreytileiki á þessari ensímvirkni mjög mikill. Er þetta ein aðal ástæða þess að fóðrun hrossa á korni getur verið varasöm í miklu magni.

Við fóðurframleiðslu er korn iðulega hitameðhöndlað. Við það formeltist sterkjan, sem eykur upptöku í smáþörmum og minnkar líkur á meltingartruflunum í viðgirni vegna þessa.

Efnaskipti kolvetna

Fóðrun á sterkju hefur einnig áhrif efnaskiptasvörum líkama hrossa. Við mikla sterkjufóðrun verður insúlín viðbragð líkamans hærra. Svipað insúlín viðbragð getur sést hjá of feitum hrossum, sem eiga í hættu á efnaskiptasjúkdómum. Við skort á insúlínframleiðslu, þ.e. ef líkaminn nær ekki að framleiða nóg eða er ónæmur fyrir því þá safnast glúkosi í blóðrás og flyst til lifrar sem umbreytir honum í fituvef. Þetta veldur offitu og skorti á nýtanlegri orku. Einnig hafa rannsóknir sýnt hærri mjólkursýruþröskuld hrossa í þolprófi sem fóðruð voru á gróffóðri m.v. hross fóðruð á gróffóðri + kjarnfóðri. með öðrum orðum, hrossin sem fóðruð voru á mikilli sterkju, höfðu minna þol við þessar aðstæður, vegna fyrrgreindra efnaskipta.

Kostir

Sterkjan sem fæst úr höfrum er meltanlegri en úr öðru korni. Af hefðbundnum korntegundum hafa hafrar hæsta trefjainnihaldið og lægsta orkuinnihaldið. Hún er tekin fyrr upp í smáþörmum, brotin niður í glúkósa og nýtt sem orkugjafi. Því getur blóðsykurinn hækkað hraðar og gefið hestinum „orkuskot“. Aftur á móti eru minni líkur á að sterkjan komist alla leið í víðgirnið þar sem hún getur valdið meltingartruflunum. Því err fóðurtegundir sem innihalda hafra ólíklegri til að hafa neikvæð áhrif á hross heldur en t.d. fóður sem inniheldur sama magn af byggi, hveiti eða maís.

Hýði hafra er 25-35% af heildar þyngd kornins og inniheldur um 30% hrátréni. Vegna þessara eiginleika þurfa hestar að innbyrða meira magn af höfrum en öðru korni til að auka líkur á meltingartruflunum og eru því hafrar hættuminna fóður fyrir hesta en annað korn, t.d. hveiti, bygg eða maís

Gallar

Hafrar innihalda öfugt og óhentugt kalsíum/fosfór hlutfall, með of lágu kalsíum innhaldi m.v. fosfór.  Fyrir uppbyggingu sterkra beina þarf þetta hlutfall að vera a.m.k.1:1 og helst nær 2:1. Ef hross eru fóðruð á heilum höfrum, eru nauðsynlegt að bæta við  steinefnablöndu til að koma jafnvægi á þetta hlutfall. Í fóðurblöndum sem innihalda hafra er búið að stilla af steinefnahlutfallið.

„Heitir hestar“

Eftir að tilbúnar fóðurblöndur urðu æ vinsælli, var höfrum iðulega kennt um ef hrossin urðu of æst, spennt eða jafnvel sjónhrædd af fóðrinu. Fóðrunarkvillar svo sem magasár, hrossasótt og hófsperra voru einnig tengd við hafra. Hafrar hafa verið algengt hestafóður í gengum aldirnar vegna mikils framboðs, lágs verðs og hentugs næringarinnihalds.

Reynslan hefur sýnt að hafrar geti gert hesta heita og æsta. Þessi fullyrðing á að hluta til rétt á sér en ekki að fullu. Það er í raun offóðrun á sterkju og orku, en ekki offóðrun á höfrum sem geta haft þessi áhrif á hross. Þó bera að nefa aftur að geta hesta til að melta sterkju er mismunandi milli einstaklinga og því getur sami skammtur kjarnfóðurs haft neikvæð áhrif á einn hest en ekki endilega aðra.

Sem fyrr segir hafa hestar takmarkaða getu til að melta sterkju, vegna lágrar virkni amylasa í meltingarvegi. Sterkjan úr korninu er brotin niður í glúkósa og eykur blóðsykursmagnið frekar hratt, og getur því haft svipuð áhrif á hestinn og þegar leikskólabarn kemst í sælgætisskápinn. Ef sterkjumagnið er of mikið, nær líkaminn ekki að taka hana alla upp í smáþörmunum og berst hún aftur í víðgirni og getur orðið þar valdur að meltingartruflunum, magasári ofl. Þessar meltingatruflanir geta leitt af sér fyrrgreindar hegðunarbreytingar og ónot í hrossunum. 

Auðvelt er að offóðra hross á höfrum, sem og öðru kjarnfóðri. Mögulega er það einnig helsta ástæða fyrir þessu slæma orðspori sem hafrar hafa á sér. Könnun í Svíþjóð fyrir nokkrum árum sýndi að hestaeigendur þar í landi gefa allt að 9-11 kg af kjarnfóðri á dag, þar sem meðaltal var 4-3-4 kg/dag. Nánast öruggt þykir að hestar sem fá slíkt magn af sterkju munu eiga við vandamál að etja. Almenn iðja hér á landi er að gefa ekki meira en 1-1,5 kg kjarnfóðurs á dag.

Ef hestur er fóðraður í samræmi við þá þjálfun og vinnu sem hann framkvæmir er ólíklegt að hafrar eða annað kjarnfóður valdi vandræðum. Mikilvægast er því að hafa í huga að hross þarf að fóðra í samræmi við orkuþarfir þess, sem eru metnar m.a. út frá aldri, þyngd og þjálfunarálagi.

Hjá Fóðurblöndunni fæst breitt úrval af hestafóðri, bæði með höfrum og án þeirra.

 

Einar Ásgeirsson

Fóðurfræðingur Fóðurblöndunnar

Hestafóður og nammi