fbpx

Íslensk framleiðsla – íslenskt hráefni – íslenskar afurðir

Eyjólfur Sigurðsson forstjóri Fóðurblöndunnar var nýlega í opnuviðtali í Morgunblaðinu.

Meðal þess sem kom fram var að mest af því fóðri sem Fóðurblandan framleiðir er fyrir íslenskar mjólkurkýr og nautgripi. Ekki er víst að allur almenningur geri sér grein fyrir muninum á fóðrun íslenskra nautgripa og erlendra, en eins og Eyjólfur rekur fyrir blaðamanni þarf að gera hér ýmsar séraðlaganir til að fá upp sömu eða svipaða mjólkurframleiðslu, og vöðvavöxt, og gengur og gerist erlendis. Sem dæmi þá éti erlendir nautgripir hálm af ýmsu tagi sem sé ákjósanlegt grófmeti fyrir dýrin. Hálmi er hinsvegar ekki til að dreifa hér á landi.


„Þegar þú fóðrar dýr þá verður að horfa á þetta sem hálfgerða vaxtarrækt, ekki ósvipað því þegar íþróttafólk notar fæðubótarefni. Við erum að reyna að auka upptöku næringarefna úr heyinu og fóðrinu. Kjarnfóðrið er viðbót til þess að uppfylla allar næringarþarfir gripanna til þess að tryggja frammistöðu þeirra og heilbrigði. Mjólkurkýr fær til dæmis um 85% af sinni næringu í gegnum hey, en restina þarf hún að fá annars staðar frá. Ef kýrin étur bara hey, þá skortir hana ýmis vítamín, steinefni, amínósýrur o.fl. Við vinnum náið með bændum til þess að framleiða fyrir þá fyrsta þokks fóður. Til dæmis tökum við á hverju ári sýni úr heyjum þeirra og greinum. Þar spilar margt inn í, til dæmis hvort heyið er af nýju eða gömlu túni, eða hvaða yrki eru í túninu. Allt þetta skiptir máli svo við getum gert réttu blönduna og kýrin fái allt sem hún þarfnast.“


Eyjólfur bendir á að íslenska kýrin hafi nær tvöfaldað mjólkurframleiðslu sína á undanförnum árum. „Það hefur náðst meðal annars með betri aðbúnaði, umhirðu, kynbótum, betra fóðri og heyi, eins og því sem kemur í heyrúllunum. Þar verkast gróffóðrið og er vonandi alltaf í toppstandi þegar rúllan er opnuð og heyið er gefið. Þá eru sumir með hey í flatgryfjum eða stæðum, sem er þjappað, skorið og gefið. Það hefur þann kost að vera þá alltaf það sama, auk þess sem plastmengun er mun minni. Svo blanda menn þessu líka saman, en allt miðar þetta að því að heyið sé einsleitt og trufli ekki mjólkurframleiðsluna.“


Reyna að velja íslenskt

Eyjólfur leggur ríka áherslu á að Fóðurblandan velji íslenskt eins og hægt er, og það kunni viðskiptavinirnir, bændurnir, vel að meta. Það spili saman við minnkun kolefnisfótspors, en fóður Fóðurblöndunnar hafi minna kolefnisfótspor en innflutt fóður. „Við flytjum til dæmis inn hráefni í stórflutningaskipum sem menga mun minna en gámaskipin.“


Annað sem á eftir að valda byltingu í þessum efnum að sögn Eyjólfs er tækniþróun í geiranum. Um 10% af kolefnislosun heimsins koma frá jórturdýrum en von er á nýju bætiefni á markaðinn innan þriggja ára sem minnka muni metangaslosun og um leið kolefnisspor jórturdýra um 30%. „Þetta er íblöndunarefni í fóður og þegar það kemur á markaðinn þá mun það minnka árlegan kolefnisútblástur hér á Íslandi um meira en sem nemur útblæstri alls íslenska bílaflotans.“


Hann segir að ríkisstjórnir bæði Nýja-Sjálands og Noregs hafi nú til skoðunar að banna fóðursölu í löndunum nema það innihaldi þetta nýja efni, þegar það verður tilbúið. „Það er búið að prófa efnið í tilraunabúum með 7-800 kýr, í Bandaríkjunum og Kanada, og það hefur gefið mjög góða raun.“


Um 95% af metangasi úr jórturdýrum kemur út um munninn sem ropi en 5% úr afturendanum, að sögn Eyjólfs. Að hans sögn nemur fóðurframleiðsla Fóðurblöndunnar og Bústólpa um 50 þúsund tonnum. „Fóðurmarkaðurinn í heild sinni er um 110 þúsund tonn. Lífland er með svipaða hlutdeild og við, og svo er innflutt fóður um 10 þúsund tonn.“


Eyjólfur segir innflutning fóðurs hafa aukist frekar en hitt á undanförnum árum.


Eins og sagði hér á undan er kúafóður fyrirferðarmest í framleiðslu Fóðurblöndunnar, en einnig framleiðir fyrirtækið mikið af fóðri fyrir fiska og fugla. Minna sé framleitt fyrir svín, enda blandi margir svínabændur sitt eigið fóður. „Svo framleiðum við einnig smærri vörur, eins og hunda- og hestafóður. Keppnishestar þurfa fóður sem skilar sér hratt inn í kerfið. Þetta gengur allt út á að hámarka árangurinn, eins og hjá íþróttamönnum.“


Hægt er að nálgast greinina hér í heild sinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *